Ístak er öflugt verktakafyrirtæki sem annast fjölbreytt verkefni á ýmsum sviðum. Þar má nefna byggingaframkvæmdir af ýmsu tagi, virkjanir, stóriðjuframkvæmdir, jarðvinnuverk, mannvirkjagerð og hafnarframkvæmdir auk vega- og brúagerðar. Ístak hefur verið leiðandi á íslenskum verktakamarkaði í ríflega hálfa öld og hefur haft mikil áhrif á þróun bygginga og annarra mannvirkja, jafnt á Íslandi sem á erlendri grundu.
Ístak var stofnað árið 1970 og hefur nú verið starfrækt samfellt í ríflega hálfa öld. Feðgarnir Kay og Sören Langvad stofnuðu Ístak ásamt Gunnari Möller, Einari Sigurðssyni, Páli Sigurjónssyni og Jónasi Frímannssyni. Fyrirtækið var stofnað í kjölfar þess að Alþingi samþykkti ný lög um að opinberar framkvæmdir skyldu boðnar út. Þessi lagasetning lagði grunninn að starfsemi öflugra og sjálfstæðra verktakafyrirtækja á Íslandi.
Jafnt fyrir sem eftir seinni heimsstyrjöldina sáu danskir aðilar um viðamiklar framkvæmdir á Íslandi. Þær voru flestar unnar á vegum opinberra aðila. Þannig kom danska fyrirtækið Höjgaard & Schultz að lagningu hitaveitu í Reykjavík og fyrstu vatnsaflsvirkjuninni við Sog. Þar vann verkfræðingurinn Kay Langvad en hann var kvæntur íslenskri konu, Selmu Gudjohnsen. Sonur þeirra, Sören Langvad, lauk stúdentsprófi hér á landi auk fyrri hluta verkfræðináms við Háskóla Íslands.
Kay gerðist sjálfstæður athafnamaður í Danmörku og keypti hlut í múverksfyrirtækinu E. Phil & Sön árið 1947. Fyrirtækið haslaði sér völl við ýmiss konar verklegar framkvæmdir og meðal annars við hafnargerð þar í landi og gerð vatnsaflsvirkjana á Íslandi. Starfsemin óx og dafnaði næstu tvo áratugi en þar varð sonurinn Sören brátt atkvæðamikill.
Búrfellsvirkjun var fyrsta stóra vatnsaflsvirkjun Íslendinga og sáu E. Phil & Søn um framkvæmdir við hana ásamt sænska fyrirtækinu SENTAB og Almenna byggingarfélaginu en því verki lauk að mestu árið 1970. Ístak var stofnað í beinu framhaldi af því verkefni. Þann 18. nóvember 1970 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag og gefið heitið Ístak.
Fyrstu verkefni Ístaks voru miðlunarframkvæmdir við Þórisvatn, Vatnsfellsveita og stækkun Búrfellsvirkjunar. Á hálfri öld hafa fjölmörg og fjölbreytt verkefni verið unnin af hálfu Ístaks, bæði á Íslandi og víðar um heim.
Umfang Ístaks í Noregi var á sínum tíma verulegt en Ístak vann þar meðal annars að tíu jarðgöngum, tveimur vatnsaflsvirkjunum og fjölmörgum vegum og öðrum mannvirkjum.
Ístak hefur unnið við verkefni á Grænlandi nær óslitið frá árinu 2002 en þar hefur Ístak byggt virkjanir, hafnir og skóla. Þar ber helst að nefna virkjun í Illulissat en framkvæmdum við hana lauk árið 2014. Virkjunin var stærsti einstaki verksamningur í sögu Ístaks á þeim tíma. Árið 2020 tók Ístak aftur að sér stórt verkefni á Grænlandi en það er bygging Nuuk skóla. Verkið telst einnig til stærstu einstöku verkefna félagsins en byggingin mun hýsa leik- og grunnskóla ásamt því að vera miðstöð fyrir afþreyingu og menningu bæjarbúa.
Framkvæmdir Ístaks á Íslandi hin síðari ár eru umfangsmiklar. Þar má nefna byggingar á borð við Háskólann í Reykjavík, Klettaskóla, Náttúrufræðihúsið í Urriðaholti, endurgerð á Sundhöll Reykjavíkur, Helgafellsskóla, uppsteypa hótels og íbúða við Hörpu, Fiskvinnslu G. Run í Grundarfirði, Stúdentagarða við Sæmundargötu og Hús íslenskunnar við Arngrímsgötu.
Hin síðari ár hefur Ístak unnið að smíði tveggja vatnsaflsvirkjana. Þær eru Búðarhálsvirkjun sem var reist á árunum 2010-2013 og Brúarvirkjun sem reist var á árunum 2018-2020.
Núverandi eigandi Ístaks er danska verktakasamsteypan Per Aarsleff Holding A/S sem keypti Ístak árið 2015.
Ístak hefur alla tíð starfað jafnt á Íslandi sem erlendis. Í verkefnum erlendis hefur Ístak ýmist leitt verkefni eða verið í samstarfi við eigendur Ístaks. Einnig hafa starfsmenn Ístaks verið þátttakendur í verkefnum hjá móðurfélaginu um allan heim og þannig miðlað af þekkingu sinni og reynslu. Árið 2015-2017 unnu Ístak og Aarsleff saman að byggingu nýrrar hafnar í Nuuk á Grænlandi með heildaraðstöðu fyrir allan skipaflutning til og frá Grænlandi.
Árið 2018 voru settir niður 265 staurar við Keilugranda í Reykjavík sem þjónuðu því hlutverki að mynda undirstöður fyrir sökkla íbúðarblokka. Stauranir voru 9-12 metra langir og byggðar voru 78 íbúðir á þessum undirstöðum. Aðferðin er ekki algeng á Íslandi en Ístak vann verkefnið í samstarfi við systurfyrirtæki sín sem eru í eigu Aarsleff samstæðunnar.
Notaður var fullkominn búnaður frá Aarsleff og gekk það mun betur en menn höfðu þorað að vona. Hægt er að nota þessa aðferð víðar þar sem erfitt er að efnisskipta, t.d. við strandlengju eða á svæðum þar sem umferð er mikil á stofnæðum.
Nýr hafnarbakki framan við frystihús HB-Granda í Reykjavík 2017-2018 og síðan niðurrekstur á stálþili á Kleppsbakka fyrir Faxaflóahafnir eru góð dæmi um verkefni sem unnin hafa verið í samstarfi við Aarsleff.
Umsvif Ístaks á Keflavíkurflugvelli hafa verið mikil í hálfrar aldar sögu Ístaks. Afskipti Ístaks hófust á Keflavíkurflugvelli með uppsteypu og frágangi utanhúss á fyrsta áfanga flugstöðvarinnar (Norðurbygging) sem reist var á árunum 1985-1987. Síðar var flugstöðin stækkuð og svokölluð Suðurbygging reist við enda landgangsins sem tengir saman Suðurbyggingu og Norðurbyggingu. Ístak vann það verk í samstarfi við Højgaard & Shultz á árunum 2000-2001. Á árunum 2004-2005 vann Ístak að stækkun Norðurbyggingarinnar, en þá voru móttöku- og komusalir stækkaðir auk þess sem þaki var lyft og gerð voru skrifstofurými á 3. hæð. Árin 2014 – 2016 sá Ístak um innanhússfrágang á stækkun á Suðurbyggingu til vesturs og einnig um stækkun farangursflokkunarstöðvar sem er viðbygging við Norðurbyggingu. Ístak sá um stækkun Suðurbyggingar til norðurs ásamt fyrsta hluta á breikkun landgangsins. Loks vann Ístak við stækkun á steyptum flughlöðum austan flugstöðvar á árunum 2016 – 2018. Síðla árs 2021 sömdu Ístak og Isavia enn á ný og felst samningurinn í gerð nýrrar 1.200 metra akbrautar fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli og næsta áfanga nýrrar austurálmu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Aðalskrifstofur Ístaks voru lengi vel í leiguhúsnæði að Skúlatúni 4. Árið 1999 hóf fyrirtækið byggingu á sérhönnuðu skrifstofuhúsnæði til eigin nota að Engjateig 7 og þangað var skrifstofustarfsemin flutt árið 2001. Eftir að starfsemi Ístaks var flutt að Bugðufljóti í Mosfellsbæ var húsið að Engjateigi selt bandaríska ríkinu og í framhaldinu var gerður samningur um endurbyggingu hússins til notkunar fyrir sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Það verkefni stóð yfir frá 2015-2019.
Rio Tinto Alcan eigandi ISAL ákvað að ráðast í uppfærslu á álverinu í Straumsvík árin 2010-2015 sem kallað var IPU verkefnið. Verkefnið var fjölþætt og gekk meðal annars út á að auka framleiðslugetu á áli um 20% en á sama tíma að bæta áreiðanleika verksmiðjunnar. Einnig voru gerðar miklar breytingar á steypuskála en nú eru verðmætari álboltar framleiddir í stað barra.
Aðkoma Ístaks að verkefninu hófst haustið 2010 þegar Ístak reyndist lægstbjóðandi í viðbyggingu steypuskálans. Um var að ræða 10.000 m2 stálgrindarhús undir breytta framleiðslu í steypuskála. Næstu árin tók Ístak einnig að sér fjölda annarra verkefna á svæðinu. Stærsta verkefnið var uppsetning á nýjum reykhreinsivirkjum fyrir kerskála 1 og 2. Auk þess sá Ístak um uppsetningu á nýjum boltasteypuvélum í steypuskála ásamt tilheyrandi vélbúnaði. Ístak byggði einnig nýja spennistöð á milli kerskála, nýja loftþjöppustöð, baðefnageymslu, hliðhúsið var stækkað og sitthvað fleira. Ístak sá einnig um fjölþætta lagna- og jarðvinnu á svæðinu auk þess sem háspennustrengir, vatnsrör og fráveita voru grafin niður á milli bygginga.
Verkefnið var mjög krefjandi en öll vinna fór fram á svokölluðu „Brown field“ þar sem unnið er við hlið verksmiðju í rekstri. Því þurfti mikla samræmingu til þess að tryggja að áhrif á framleiðslu væru lágmörkuð. Einnig voru kröfur í öryggis- og gæðamálum með því strangasta sem sést hefur á Íslandi en með réttu hugarfari tókst starfsmönnum Ístaks að ná mjög góðum árangri í þessu umhverfi. Þeir starfsmenn Ístaks sem tóku þátt í verkefninu eru mjög stoltir af framlagi sínu og þeir lærðu mikið af þessu stóra alþjóðlega verkefni fyrir kröfuharðan verkkaupa.
Árið 2018 setti Ístak á laggirnar sérstaka deild viðhaldsþjónustu sem sinnir viðhaldi og endurbótum fasteigna fyrir fagaðila á fasteignamarkaði, stærri fyrirtæki, fasteignafélög, ríki og sveitarfélög. Hvort sem um er að ræða stór og skipulögð viðhaldsverkefni eða tilfallandi verk þá er Ístak traustur samstarfsaðili á sviði viðhalds.
Með tilkomu sérstakrar viðhaldsdeildar hóf Ístak að bjóða viðskiptavinum sínum viðhaldsþjónustusamninga sem tryggja greiðan aðgang að færum iðnaðarmönnum ásamt verkefnastýringu og umsjón framkvæmda, allt eftir þörfum viðskiptavinarins.
Með viðhaldsþjónustusamningi geta viðskiptavinir fengið alla viðhaldsvinnu á einum stað, hvort sem um er að ræða trésmiði, málara, múrara, rafvirkja, pípara eða aðra sérhæfða iðnaðarmenn.
Hjá Ístaki er starfrækt innkaupadeild. Deildin sér um innkaup á byggingavörum, efni, varahlutum, tækjum frá innlendum og erlendu birgjum, öflun tilboða og samningagerð. Deildin starfar náið með starfsfólki lagers hvað varðar birgðahald og hefur umsjón með flutningum fyrirtækisins erlendis. Deildin sér einnig um samninga við fyrirtæki sem bjóða upp á leigu á vinnuvélum og tækjabúnaði, sölu á vinnuvélum, bílum, sjóförum, tækjum og búnaði tengdum véladeild og lager.
BIM deild Ístaks var stofnuð árið 2017 og hefur það hlutverk að stuðla að stafrænni þróun í fyrirtækinu. Í dag er stór hluti verkefna að nýta sér tækni BIM og annarra stafrænna verkfæra og má segja að möguleikarnir séu óþrjótandi fyrir vinnustað eins og Ístak.
Verkefnin sem unnin eru hjá Ístaki eru framleiðsluteikningar og stafrænir klippi-og beygjulistar á steypustyrktarjárnum, BIMstudd magntaka, notkun BIM líkana á verkstað, samræming og árekstrargreining, 4D verkáætlun og rafrænar úttektir. Þessi tækniþróun gerir það að verkum að framkvæmdir verða árangursríkari með lægri kostnaði og styttri verktíma samhliða því að ferlar batna og verða gagnsærri.
Starfsemi Ístaks nær yfir stórt og fjölbreytt svið og fyrirtækið býður upp á víðtæka þjónustu. Stefna Ístaks er og hefur verið að vera leiðandi verktakafyrirtæki sem mætir þörfum markaðarins með fyrirmyndarverkskipulagi og góðu starfsfólki. Fyrirtækið vinnur eftir gæðastefnu sem miðar meðal annars að því að vera með reynt og hæft starfsfólk innan sinnan raða og afhenda verk á réttum tíma af þeim gæðum sem samið er um.
Einkunnarorð Ístaks eru framkvæmdagleði í fyrirrúmi og fela þau í sér yfirgripsmikla þekkingu á þeirri tækni og vinnuaðferðum sem þarf til að sinna fjölþættri verktakastarfsemi. Markmið Ístaks er að mæta þörfum íslensks og erlends markaðar fyrir byggingar, önnur mannvirki og aðrar verklegar framkvæmdir og veita viðskiptavinum fyrirtaksþjónustu.
Frá árinu 2012 hafa yfirstjórn og skrifstofa Ístaks verið til húsa að Bugðufljóti 19 í Mosfellsbæ.
Í október 2022 voru starfsmenn Ístaks um 500. Starfsfólk skiptist upp í fjóra hópa eftir starfssviði. Sérfræðingar og stjórnendur eru oftast tæknimenntaðir og ýmist með prófgráður í verk-eða tæknifræði. Verkstjórar Ístaks hafa fjölbreyttan menntunarbakgrunn en allir hafa þeir mikla reynslu í því að stýra framkvæmdum á vinnusvæðum. Iðnaðarmenn hjá Ístaki eru oftast menntaðir í trésmíði en einnig í málmiðn, véliðn og rafiðn. Ófaglærðir starfsmenn Ístaks vinna aðallega á byggingarsvæðum eða við jarðvegsframkvæmdir og sem tækjastjórnendur og bílstjórar.
Síðastliðinn áratug, 2010-2020, hefur Ístak komið að mörgum og mismunandi framkvæmdum sem gert hafa auknar kröfur til starfsmanna og fyrirtækisins um að læra nýja hluti eða vinna í nýjum aðstæðum. Starfsmenn Ístaks og stjórnendur öðluðust á þessum tíma reynslu í verkefnum sem unnin voru á láði og á legi, á Íslandi og erlendis, við strönd eða hátt uppi til fjalla. Fjöldi þjóðerna hjá Ístaki jókst líka á þessu tímabili og voru starfsmenn af meira en 13 þjóðernum við störf hjá Ístaki á þessu tímabili. Hlutfall erlendra starfsmanna var líka nálægt helmingi og var Ístak með starfsnema frá skólum á Íslandi, Grænlandi og Danmörku á þessu tímabili.